Ferill 661. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 988  —  661. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um þinglega meðferð EES-mála (gullhúðun).


Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Óli Björn Kárason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Birgir Þórarinsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason.


    Alþingi ályktar að við setningu laga um EES-mál verði að jafnaði ekki gengið lengra en lágmarkskröfur viðkomandi EES-gerðar kveða á um. Að öðrum kosti skal rökstyðja sérstaklega slíka tilhögun.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari vilja flutningsmenn leggja áherslu á að við innleiðingu EES-gerða verði ekki gengið lengra en nauðsynlegt er til að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum sem leiða af EES-samningnum, nema sérstakar ástæður standi til þess. Í slíkum tilvikum sé það þá rökstutt sérstaklega. Með þessu er áréttað það sem kemur fram í 3. málsl. 37. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Þar segir að frumvörp, sem innleiða eigi reglur er byggjast á EES-gerðum, skuli að meginstefnu ekki fela í sér önnur ákvæði en þau sem leiðir af gerðinni. Skal þá í greinargerð tilgreina hvaða gerðir frumvarpinu er ætlað að innleiða og taka fram ef gengið er lengra en lágmarkskröfur gerða kveða á um.
    Í reglum um þinglega meðferð EES-mála, sem settar eru af forsætisnefnd, kemur sömuleiðis fram í 4. mgr. 8. gr. að lagafrumvörp til innleiðingar á EES-gerð skuli að meginstefnu aðeins fela í sér þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að endurspegla þá EES-skuldbindingu sem við á. Varði frumvarpið fleiri atriði en innleiðingu gerðar, skal í greinargerð tilgreina sérstaklega hvaða greinar frumvarpsins eru til innleiðingar auk þess sem rökstyðja ber hvers vegna talið var nauðsynlegt að víkja frá meginreglu um hrein innleiðingarfrumvörp.
    Þrátt fyrir framangreind fyrirmæli er ljóst að víða er pottur brotinn hvað þetta varðar. Íslensk stjórnvöld hafa ríka tilhneigingu til að herða á íþyngjandi EES-gerðum við innleiðingu þeirra, auk þess sem upplýsingagjöf til þingsins varðandi þetta er oft ábótavant. Í þessum efnum má benda á skýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um þróun reglubyrði atvinnulífsins á 143. til 145. löggjafarþingi. Þá má sömuleiðis vísa til skýrslu dr. Margrétar Einarsdóttur um innleiðingu EES-gerða í landsrétt, sem var lögð fram á Alþingi á 154. löggjafarþingi (þskj. 925). Rannsókn Margrétar leiddi í ljós að gullhúðun væri beitt í talsverðum mæli með þeim afleiðingum að meira íþyngjandi regluverk hefði skapast en þörf var á miðað við lágmarkskröfur viðkomandi EES-gerða. Sömuleiðis leiddi hún í ljós að misbrestur væri á því að tilgreint væri þegar meiri kröfur væru gerðar í innleiðingarlöggjöf og að rökstuðningur fylgdi slíkri ákvörðun. Margrét lagði til að sérstakur kafli yrði í greinargerð innleiðingarfrumvarpa þar sem fram kæmi ef ætlunin væri að beita gullhúðun og þá með rökstuðningi fyrir því.
    Mikilvægt er að ekki sé gengið lengra við innleiðingu EES-gerða en þörf er á. Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði Evrópusambandsins, auk þess sem íþyngjandi og óskilvirkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-samstarfinu koma óorði á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er því eðlilegt að greint sé á milli skuldbindinga sem verða raktar til EES-samningsins og reglusetningargleði íslenskra stjórnvalda.
    Þó telja flutningsmenn nauðsynlegt að gert sé ráð fyrir því að í sumum tilvikum kunni að vera ástæða til að ganga lengra en lágmarkskröfur kveða á um til að uppfylla EES-skuldbindingar Íslands. Í þeim efnum má sérstaklega nefna að EES-gerð getur haft í för með sér ívilnandi áhrif fyrir einstaklinga eða lögaðila þar sem þeim kann að vera tryggður betri eða meiri réttur en ella. Því er ólíku saman að jafna miðað við þegar verið er að leggja óþarfa byrðar á íslenskt samfélag samhliða innleiðingu EES-gerða.
    Lög og reglur Alþingis hafa ekki dugað til að koma skikki á þessa framkvæmd. Er það miður að þinginu sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing að þessu leyti. Því telja flutningsmenn það nauðsynlegt að Alþingi árétti þetta sérstaklega með þessum hætti og sendi skýr skilaboð. Vilji stjórnvöld ganga lengra en lágmarkskröfur viðkomandi EES-gerðar kveða á um, er þeim í lófa lagið að rökstyðja þá tilhögun sérstaklega eða leggja fram sérstök frumvörp þess efnis sem teljast þá ekki innleiðingarfrumvörp.